Hjólaðu af stað inn í sumarið

Núna ætla Íslendingar að fara út að hjóla! Hjólasala hefur aukist síðustu vikurnar og núna er átakið Hjólað í vinnuna að hefjast 6. maí. Það er að mörgu að huga að þegar kemur að hjólreiðum og fengum við Ingvar Ómarsson afreksmann í hjólreiðum til að taka saman hvað er gott að hafa í huga.

Hjálmurinn

Það þarf að passa að hjálmurinn sé rétt stilltur á höfðinu, og í góðu ástandi. Það er best að skipta um hjálm á 5-10 ára fresti til að tryggja að hann sé öruggur ef hann skyldi fá á sig högg. Stærðin á hjálminum skiptir miklu máli, það gengur ekki að vera með hjálm sem er of stór, og ætla að bjarga sér með því að herða ólarnar í botn, heldur þarf hjálmurinn að fara vel á höfuð. Mér finnst best að tryggja að hjálmurinn halli ekki of mikið aftur á hausnum, hann þarf að ná yfir hluta af enninu, eða fyrir mér, vera ekki meira en 1cm fyrir ofan sólgleraugun sem ég nota á hjólinu.

Klæðnaður

Góður klæðnaður á hjóli fer mikið eftir árstíðum og veðurfari. Það er hægt að segja að það sé ekki til neitt sem kallast slæmt veður, bara slæmar ákvarðanir í klæðnaði. 

Ferlið byrjar með góðum sokkum og grunnlagi, sem er oftast best úr merino ull. Svo koma buxurnar, lang best að vera með púðabuxur sem eru gerðar fyrir hjól, sleppa öllum nærfötum, og vera með axlabönd líka. Síðar buxur fyrir veturinn, stuttar fyrir sumarið, og svo mæli ég með að vera með stakar skálmar sem er hægt að klæða sig í undir stuttar buxur, þegar veðrið er ágætt en ekki nógu hlýtt fyrir bera fætur.  

Næst þarf að ákveða eftir veðri hvort maður klæðir sig í treyju, sem er góð fyrir hlýtt veður, eða jakka, sem er betri þegar það er kalt, eða blautt. Mér finnst best að vera í síðerma treyju fyrst, og bæta svo við jakka ef ég þarf þess, og er þá með einn jakka fyrir haustið og annan fyrir veturinn, báðir mis þykkir og vind eða vatnsheldir. 

Góðir hanskar eru með því mikilvægara fyrir hjólreiðar að mínu mati, og maður þarf að vanda valið þegar maður skoðar hvað er til. Það er hægt að fara úr grifflum fyrir sumartímann, í þunna hanska fyrir vorið, og alla leið upp í þriggja-putta lúffur fyrir verstu vetrarmánuði. Skóhlífar geta bjargað málum í kulda og bleytu, ná yfir flestar gerðir af hjólaskóm og eru auðveldar í notkun. Það er líka hægt að fá sérstaka vetrarskó en mér finnnst best að nota sömu skó allan ársins hring, þannig að ég fer í skóhlífar þegar veðrið er vont. Aðrir sniðugir aukahlutir eru til dæmis buff eða höfuðsokkur eins og ég heyrði einu sinni, sem getur verið snilld til að einangra hálsinn, eða eyrun. 

Að vera klár í slaginn

Þegar maður er búinn að klæða sig vel, hjálmur á hausnum og hanskar á höndum þarf að passa að hjólið sé í standi fyrir hjólatúrinn. Það er auðvitað best að yfirfara hjólið vandlega og tímanlega, en sum atriði eiga við reglulega, jafnvel fyrir hvern hjólatúr.

Hjólið þarf að vera í góðu ásigkomulagi. Öllum líður betur á hreinu hjóli, það er ekki bara betra fyrir búnaðinn heldur líka fyrir sálina. Gírar, fjöðrun ef á við, og legur hjá stýri og sveifum þurfa að vera í lagi og oft er besta lausnin að fara með hjólið í næstu hjólabúð og fá yfirferð þar. 

En það sem maður gerir heima hjá sér er jafn mikilvægt. Það þarf að tryggja að bremsurnar séu í lagi með því að prófa þær á öruggu svæði áður en maður fer í umferðina. Dekkin þurfa að vera með réttann loftþrýsting, og það er gott að eiga eina góða pumpu til að þurfa ekki að skreppa út á bensínstöð í hvert skipti. 

Dekkjaþrýstingur fer eftir stærð dekkja en flest borgarhjól eru fín með um 40 psi, götuhjól með mjórri dekkjum ættu að vera nær 80-90 psi. Fjallahjól og önnur hjól á grófum dekkjum eru góð fyrir notkun á malbiki með um 30 psi af lofti í dekkjunum.

Hjólið þarf að vera þrifið reglulega og eftir þrif er gott að þurrka keðjuna vel til að ná öllu vatni úr henni áður en hún er smurð. Smurningin fer ofan á keðjuna þar sem hún liggur flöt fyrir neðan stellið, og alls ekki setja of mikla olíu á keðjuna. Eftir smurningu er gott að snúa pedulunum afturábak nokkrum sinnum til að dreifa olíunni, og svo taka þurra tusku og renna með keðjunni á meðan maður pedalar til að þurrka afgangs olíu af. 

Góða skemmtun úti að hjóla og farðu varlega!

Ingvar Ómarsson

@ingvarom