Jæja Ásdís mín er þetta ekki að verða komið gott af þessu spjótkasti? Er ekki kominn tími til að fara að lifa lífinu?

Þessar spurningar koma yfirleitt beint frá hjartanu og algjörlega án þess að viðkomandi geri sér grein fyrir því hvernig þær hljóma í mínum eyrum. Þær eru alltaf jafn óþægilegar. Samt skil ég vel að fólk velti því fyrir sér hvað drífur mig áfram í að æfa eins og brjálæðingur á hverjum degi eftir nær 20 ár. Til þess að skilja það þá þurfum við að líta aðeins til baka.

Upphafið

Ég var ekki nema tíu ára gömul þegar ég tilkynnti hátíðlega inni í eldhúsi heima hjá mér að ég ætlaði að keppa á Ólympíuleikunum. Á þessum tíma var ég nýbyrjuð að æfa badminton og ekkert benti til þess að mér myndi takast ætlunarverkið. Ekkert nema eldurinn sem var að byrja að myndast inni í mér. Þegar ég byrja í frjálsum tæplega tólf ára þá nær keppnisskapið nýjum hæðum. Nú var árangurinn orðinn mælanlegur! Bálið óx og ég ákveð að gefa mig alla í þetta metnaðarfulla markmið tæplega sextán ára gömul. Sjö árum seinna tekst mér ætlunarverkið. Ég kemst á mína fyrstu Ólympíuleika í Peking 2008 og svo aftur í London 2012 og í Ríó 2016.

En hvers vegna læt ég ekki þar við sitja?

Vandamálið er að í upphafi var markmiðið bara að komast á leikana. Á leiðinni þangað lærði ég hins vegar að þetta snýst ekki bara um áfangastaðinn, sem í þessu tilfelli eru leikarnir sjálfir. Nei, þetta er svo miklu stærra og meira en það. Þegar þú ýtir líkamanum þínum lengra en þú hélst að hann gæti nokkurn tímann farið trekk í trekk og nærð árangri sem þú trúðir ekki að væri mögulegur þá lærir þú að öll mörk eru bara til í höfðinu á þér. Hjá mér jókst sífellt forvitnin um hversu langt ég gæti eiginlega farið. Þessi forvitni er ástæðan fyrir því að ég er ekki komin með nóg. Ég veit að ég kemst ennþá lengra.

Endirinn nálgast

Ég hef þó tekið þá ákvörðun að 2020 verður mitt síðasta ár sem spjótkastari. Allt þarf einhvern tímann að taka enda og nú er ég 34 ára gömul. Mín ósk hefur alltaf verið að ég fái að enda ferilinn á mínum eigin forsendum, ekki vegna meiðsla eða pressu frá öðrum. Ég vil ganga stolt og sátt af velli í síðasta skiptið. Þess vegna virðist það ansi vel við hæfi að ljúka ferlinum á því verkefni sem kom honum af stað. 

Allt lagt í sölurnar síðasta árið

Forvitnin um hversu langt ég get farið hefur þó ekkert dofnað og þess vegna er ég að gefa allt í þetta fyrir síðasta árið. Ég bý og æfi í Gautaborg í Svíþjóð en þjálfarinn minn býr rétt fyrir utan Stokkhólm. Þetta þýðir að æfingahópurinn minn er allur á Stokkhólms svæðinu og ég æfi ein dags daglega. Þar sem spjótkast er mikil tæknigrein þá er ekki auðvelt að vera ekki á sama stað og þjálfarinn þinn. Við leysum þetta með því að ég tek myndbönd af flestöllum æfingum sem ég geri og sendi þjálfaranum mínum. Hann gefur mér svo komment svotil jafnóðum. Reglulega fer ég til Stokkhólms og æfi með honum eða í æfingabúðir erlendis. Þetta fyrirkomulag er ekki alltaf auðvelt en bestu hlutirnir í lífinu eru það sjaldnast. Það er þó vel þess virði þar sem ég vil komast eins langt og ég mögulega get. Sjá grein fyrr í mánuðinum “Fjarþjálfunarsamband”.

Svo já, Ásdís ætlar sér á enn eina Ólympíuleikana!

Ásdís Hjálms Annerud
Instagram: @asdishjalms

Ásdís með Kari Kiviniemi þjálfaranum sínum
This div height required for enabling the sticky sidebar
Ad Clicks : Ad Views : Ad Clicks : Ad Views : Ad Clicks : Ad Views :